Fosshótel Jökulsárlón
Verki lokið
Upplýsingar
Aðalverktaki:
Húsheild
Áætluð verklok:
Vor 2016
Tegund:
Sérhæfð hönnunarverkefni
Staða:
Verki lokið
Lýsing

Hótelið er byggt upp af fimm sjálfstæðum byggingarkjörnum sem tengdir eru með tengigöngum. Í miðjukjarna hótelsins er móttaka fyrir gesti, veitingaraðstaða, aðstaða fyrir starfsfólk, tæknirými, vörumóttaka og baðstofa. Hótelið er á þremur hæðum og heildarstærð þess um 5400 m2. Í hótelinu eru 104 herbergi fyrir gesti og 16 herbergi fyrir starfsmenn.

Hótelið er frábærlega staðsett við rætur Öræfajökuls, mitt á milli Skaftafells og Jökulsárlóns, tveggja af helstu náttúruperlum Íslands og hótelið er því kjörið fyrir útivistarfólk og fjallageitur, enda er úr meira en hundrað gönguleiðum að velja þaðan og útsýnið stórfenglegt til allra átta.

Hótelið er teiknað af Bjarna Snæbjörnssyni arkitekt en aðalverktaki framkvæmdarinnar er verktakafyrirtækið Húsheild en verkefna- og byggingarstjórn er í umsjón ráðgjafafyrirtækisins Beka ehf.

Meginburðarvirki hótelsins er byggt upp úr límtréseiningum sem framleiddar eru af austuríska fyrirtækinu KLH Massivholz. Hótelið er eitt fyrsta hús sinnar tegundar hér á landi sem byggt er upp með þessum hætti. Um er að ræða mjög vistvænan og hagkvæman valkost og framkvæmdatími er mun skemmri en þekkist úr sambærilegum verkefnum.

Ólafur Ragnarsson staðarstjóri frá Húsheild er mjög ánægður með reynsluna af einingunum. „Þær eru alveg stórsniðugar. Þær hafa aukið framkvæmdahraðan örugglega um 25 – 30% og auk þess sem þær eru alveg gríðarlega traustar og hafa ekki haggast þrátt fyrir óteljandi óveður sem hafa gengið yfir okkur í vetur. Ég myndi segja að þær henti íslenskum aðstæðum mjög vel.“ Við framkvæmdina störfuðu um 50 manns sem bjuggu allir í vinnubúðum á staðnum. Framkvæmdir við hótelið hófust 15. apríl á síðasta ári og var hótelið opnað í júní 2016.