Fréttir

Brúarsmíði á Snæfellsnesi

Deila frétt

Grein sem birtist í tímaritinu Vélabrögð 2024.

Tímarit iðnaðar-, véla- og efnaverkfræðinema við Háskóla Íslands

Húsheild Hyrna eru leiðandi byggingarverktakar á Norðausturlandi með tæplega 100 starfsmenn frá ýmsum þjóðernum sem búa yfir fjölbreyttri þekkingu í byggingariðnaði og mannvirkjagerð. Fyrirtækið sinnir verkefnum af öllum stærðum og gerðum um land allt og heldur úti umsvifamikilli starfsemi fyrir opinbera aðila og einstaklinga ásamt því að framleiða gæða innréttingar, glugga og hurðar á verkstæðinu á Akureyri.

Undanfarin ár höfum við sérhæft okkur í brúarsmíði sem eru mjög tæknilega flókin verkefni sem krefjast mikillar þekkingar og hæfni þeirra sem koma að verkinu. Nýlega tókum við að okkur uppslátt og steypu á brúnum yfir Skraumu og Dunká sem eru staðsettar á Snæfellsnesi. Brúin yfir Skraumu er 43 metra löng í þremur höfum, byggð upp af samverkandi stálbitum og steyptu brúardekki. Brúin yfir Dunká er 52 metra löng, staðsteypt, uppspennt plötubrú í tveimur höfum.

Áskoranirnar voru margar og margt sem þurfti að huga að. Suðuferlar á stálgrindinni eru flóknir og kröfðust úttektar og samþykkis erlendra skoðunaraðila í samvinnu við íslenska fagaðila. Erlendir aðilar komu fyrir uppstrekkivírunum og sáu um að strekkja þá og burðalegurnarnar komu frá Þýskalandi.

Stærsti steypudagurinn var þegar brúin yfir Dunká var steypt, steypan tók rúmar 17 klukkustundir og komu yfir 25 starfsmenn að framkvæmdinni. 15 steypubílar fóru tæplega 70 ferðir frá Borgarnesi upp á Snæfellsnes með rúmlega 520 rúmmetra af steypu. Flutningurinn var krefjandi, á leiðinni eru bæði fjallvegir og gamlar brýr sem þola illa þungaflutninga en flytja þurfti stóran 184 tonna krana frá Reykjavík.

Í þessu verki eins og öðrum er mikilvægt að huga að umhverfinu og náttúrunni í kring og enn mikilvægara þar sem mikil nálægð er við viðkvæmt lífríki eins og í þessu tilfelli. Þegar byggt var undir brúna var vandað vel til verka svo að framkvæmdin hefði hvorki áhrif árfarveginn eða laxinn á ánni.

Verkframkvæmdin gekk í heildina vel, hún hófst á vormánuðum 2022 og lauk síðsumars 2023.